___

- sprenghlægilegt spurninga-og partýspil!

 

AskjaHvernig spil er þetta? Kynstrin Öll er sprenghlægilegt partýspil sem vekur eldfjörugar umræður meðal leikmanna um allt milli himins og jarðar í sambandi við samskipti kynjanna og kynferðismál. Forvitnilegur fróðleikur um málefni sem allir ættu að þekkja kryddar spilið. Spilið er fyrsta spilið sinnar tegundar hér á landi.

Fyrir hverja er spilið? Kynstrin Öll er tímalaust partýspil fyrir vina-og kunningjahópinn og kynhneigðir af öllu tagi. Markmið leiksins er að vera fyrst(ur) til að safna öllum hamingjuvörðum sem tryggja leikmönnum bjarta framtíð í kynferðismálum.

Eru “verklegar æfingar” í spilinu fyrir leikmenn? Nei, Kynstrin Öll inniheldur ekki slíkar æfingar. Spilið er hreint ekki vandræðalegt þar sem það byggist ekki á því að fólk segi frá eigin kynlífsreynslu heldur ræði um almennt um kynferðismál.

Segja má að Kynstrin Öll sé fjölfræðilegur upplýsingabanki sem vekur upp skemmtilegar og forvitnilegar umræður jafnt sem rökræður. Spilið er ætlað vina-og kunningjahópum sem vilja spila öðruvísi spil um sívinsælt málefni. Vinsælasti spilamátinn er að skipa í tvö lið eða fleiri sem keppa um að vera fyrsta liðið til að ná öllum hamingjuvörðunum.

Hver er höfundur spilins? Höfundur spilins er sérfræðingur á sviði kynferðismála og má segja að hann hafi lengi haft kynlíf “á heilanum”.

Hvert er innihald öskjunnar? Í öskjunni eru fimm veglegir spilastokkar (fjórir flokkar með þekkingarspurningum og einn viðhorfaflokkur) með 750 spurningum og yfir 2000 valmöguleikum í þekkingarspurningunum. Fyrir utan leikreglur og bækling um hugmyndafræðina að baki Kynstrin Öll inniheldur spilið litríkar hamingjuvörður, tening, skriffæri og skrifblokkir.

Í þekkingarflokkunum fjórum; menningu, samböndum, líkamanum og kynhegðun er rétta svarið alltaf á meðal valmöguleika svo leikmenn þurfa ekki að vera sprenglærðir í fræðunum heldur giska á rétt svar með hjálp síns liðs.

Í spilastokknum Menning eru spurningar, m.a. úr dægurmenningu samtímans, listum, sögu og bókmenntum. Dæmi: Hvenær var Herra Hinsegin kjörin í fyrstu fegurðarsamkeppni homma á Íslandi?, Hvaða bandaríski sjónvarpsatburður var síðan kallað Nipplegate?

Í spilastokknum Sambönd eru spurningar, m.a. um aðlöðun, ástir, kynhneigðir, kynlíf og náin sambönd. Dæmi: Hvaða kynlífsleikur er nakta sardínan? Hvað er póstbrúður?, Hvað merkir að kássast upp á annarra manna jússur?

Í spilastokknum Kynhegðun eru spurningar um kynhegðun og kynhneigðir af öllu tagi. Dæmi: Hvers vegna er erfitt að iðka kynlíf úti í geimnum í þyngdarleysi?, Hvers vegna eiga kynmök sér oftar stað á laugardögum en aðra daga vikunnar?

Í spilastokknum Líkaminn eru spurningar sem tengjast líkamanum, s.s. um útlit og fegurð, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma og kynþroskann. Dæmi: Þarf 15 ára stúlka að fá leyfi foreldra til að fá getnaðarvarnapilluna? Eykur neðanrakstur á kynfærum kvenna útbreiðslu kynsjúkdóma?

Í fimmta og síðasta spilastokknum Taka sjensinn eru viðhorfaspurningar um allt milli himins og jarðar um kynferðismál og samskipti kynjanna. Dæmi: Hvaða mótspilari getur skrifað verstu kynlífslýsingu í skáldsögu? Hvað finnst mótspilurum að ævisagan þín ætti að heita?

Share